Ástþór Árnason listamaður hefur hlotið nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2024.
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar samþykkti, á fundi sínum fimmtudaginn 9. nóvember sl., að útnefna Ástþór Árnason Bæjarlistamann Fjallabyggðar árið 2024.
Ástþór Árnason er Siglfirðingur, fæddur 1992, og þegar orðinn landskunnur fyrir húðflúr sín. Hæfileikar Ástþórs á listasviðinu komu snemma fram og var hann ungur að árum er hann opnaði sína fyrstu myndlistarsýningu. Síðan þá hefur hann haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Hann lauk stúdentsprófi af listabraut við Menntaskólann á Tröllaskaga árið 2013 og hefur listsköpun verið hans aðalstarf síðan þá.
Ástþór hefur vakið mikla athygli fyrir glæsilegar tattúskreytingar sínar og þykja verk hans einkar fagmannlega unnin og vekja eftirtekt fyrir vönduð vinnubrögð, verkkunnáttu og sögð einstaklega lifandi og persónuleg. Ástþór er með vinnustofu á Siglufirði þar sem hann bæði húðflúrar og vinnur að öðrum verkum sínum.
Fjölmargar tilnefningar bárust og þakkar markaðs- og menningarnefnd kærlega fyrir þær.
Við óskum Ástþóri innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2024.