Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2021

Jón Þorsteinsson, söngvari og söngkennari Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2021.

Jón er Ólafsfirðingur fæddur 1951, næstelstur sjö systkina. Foreldrar hans eru Þorsteinn Jónsson heitinn og Hólmfríður Jakobsdóttir. Hann hóf tónlistarnám ungur að árum hjá Magnúsi Magnússyni í Tónskóla Ólafsfjarðar. Hann stundaði seinna nám hjá Marit Isene við Tónlistarháskólann í Osló í Noregi, við Det Jydske Musikkonservatorium í Árósum og hjá Arigo Pola í Modena á Ítalíu. Hann kom víða fram sem einsöngvari sem og kórsöngvari í útvarps- og óperukórum. Jón hefur starfað í Hollandi frá 1980 og söng hann meðal annars yfir 40 hlutverk á þeim tíma hjá Hollensku ríkisóperunni sem og víðs vegar við óratoríu- og ljóðaflutning. Einnig var hann meðlimur í Óperustúdíói Hollensku ríkisóperunnar frá 1982 til 1985. Jón naut leiðsagnar hollensku söngkonunnar Aafje Heynis frá 1986-1995 og byrjaði sjálfur að kenna upp úr 1982. Frá 1993 hefur hann einbeitt sér að söngkennslu, raddþjálfun og kennslufræði og frá 2008 til ársins 2018 starfaði hann sem prófessor í söng við Tónlistarháskólann í Utrecht í Hollandi til ársins 2018. Á árunum 1998 til 2003 og frá 2008 til 2010 stundaði Jón nám við Lichtenberg Institut für angewandte Stimmphysiologie. Hann hefur haldið masterklassa frá 1985 víðs vegar á Íslandi og nú síðustu árin í Ólafsfirði, Hollandi, Þýskalandi, Danmörku, Bandaríkjunum og Belgíu. Hann kenndi auk þess um nokkurra ára skeið við Jette Parker Young Artist Program við Royal Opera House, Covent Garden í Lundúnum.

Eftir að hann flutti aftur til Ólafsfjarðar árið 2016 eftir 45 ára búsetu erlendis við nám og störf. Hann hefur síðan þá starfað sem söngkennari við Tónlistarskólann á Tröllaskaga, haldið „masterclass“, annast raddþjálfun, komið fram við fjölmörg tækifæri meðal annars á Berjadögum í Ólafsfirði og margt fleira.

Jón hefur unnið óeigingjarnt starf til eflingar menningar í samfélaginu meðal annars hefur hann boðið til tónleika í Tjarnarborg á birtudegi 13. janúar en þessi dagur var lengi kallaður birtudagur í Ólafsfirði. Jón hefur hefur fengið innlenda og erlenda söngvara til liðs við sig og með því hefur hann auðgað menningarlíf staðarins.

Jóni Þorsteinssyni er þakkað hið gríðarlega mikla og góða starf sem hann hefur gefið til samfélagsins á síðastliðnum árum. 

Myndir frá útnefningunni