Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2017

Arnfinna Björnsdóttir Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2017. 

Arnfinna Björnsdóttir

Arnfinna Björnsdóttir hefur fengist við listir og handverk í 55 ár á Siglufirði. Draumur hennar á yngri árum var að fara í listnám en örlögin leiddu hana í Verslunarskólann og í framhaldi af því í skrifstofuvinnu fyrir bæjarfélagið og gegndi hún því starfi í 35 ár. Í gegnum tíðina hefur Arnfinna sótt ýmis námskeið á sviði lista undir leiðsögn Örlygs Kristfinnssonar og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Frá því hún hætti störfum hjá Siglufjarðarbæ, síðastliðin 15 ár, hefur hún einbeitt sér að listinni. Hún heldur vinnustofu í Aðalgötunni þar sem hún vinnur daglega að verkum sínum og hefur opið almenningi.

Klippimyndir Arnfinnu af stemningu síldaráranna, eru vel þekktar og sýna mikla næmni fyrir viðfangsefninu jafnt og meðferð lita og forma. Hún hefur sett upp einkasýningar á verkum sínum á Akureyri og Siglufirði og tekið þátt í samsýningum á Akureyri, Siglufirði og Hjalteyri. Verk hennar vekja ávallt mikla athygli og hafa þekktir listamenn og safnarar á borð við Kristján Guðmundsson og Jan Voss keypt verkin hennar. Í hugum margra Siglfirðinga er Arnfinna listamaður sem hefur haldið uppi merkjum sköpunargleðinnar í áratugi.

Arnfinna verður 75 ára í júlí 2017, af því tilefni vinnur hún nú að stórri sýningu sem haldin verður í Bláa húsinu við Rauðku í sumar.