Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2013  Þórarinn Hannesson

Þórarinn Hannesson eða Tóti, eins og hann er jafnan kallaður, er elstur fjögurra systkina fæddur og uppalinn í menningarbænum Bíldudal á Vestfjörðunum eins og hann segir sjálfur frá. Þar átti hann góða og ævintýraríka æsku, sem hann hefur að einhverju leyti gert grein fyrir í tveimur ljóðabókum. Foreldrar hans eru þau Hannes Stephensen Friðriksson og Þórunn Helga Sveinbjörnsdóttir sem hafa alla tíð komið mikið að menningarmálum fyrir vestan þannig að Tóti á ekki langt að sækja áhugann.

 
Enginn slítur þau bönd, sem hann er bundinn heimahögum sínum. Móðir þín fylgir þér á götu, er þú leggur á stað út í heiminn, en þorpið fer með þér alla leið. 
 
Þessar ljóðlínur eru eftir eitt af uppáhaldsskáldum Þórarins, að mér er sagt, Jón úr Vör og heitir Þorpið. Ég held að ljóðið lýsi hugsunum okkar margra sem höfum notið þess alast upp í litlu plássi úti á landi og notið þess frelsis og þeirra tækifæra og möguleika, sem slíkt uppeldi felur í sér. Enda segist hann vera alinn upp við að það sé jafn sjálfsagt að standa á sviði eins og að mæta í vinnuna.
 
Tóti er giftur Kristínu Guðmundsdóttur.
 
Tóti er allt í senn söngva- og ljóðaskáld, tónlistarmaður, kennari, íþróttaþjálfari og síðast en ekki síst forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands sem formlega var vígt 8. júlí 2011. 
Ég hef oft velt því fyrir mér hversu áræðið margt fólk er eins og Tóti sem leggur af stað í slíka vegferð sem það er að setja upp svona safn eða gefa út tónlist, kver og bækur. Mér þykir ekki líklegt að margir hefðu verið æstir í að fjárfesta í hugmyndinni um ljóðasetur hefði þeim staðið það til boða. Fólk sér ekki hagnaðarvonina og telur þá sem ákveða að hella sér út í slík verkefni jafnvel svolítið skrítna. En hvað væri samfélagið án allra þeirra sem þora að gera drauma sína að veruleika og standa með sjálfum sér? 
 
Þegar ég fór að glugga aðeins í ferilinn Tóta þá áttaði ég mig á því að hann hefur komið ótrúlega miklu í verk og líklega meira en margan grunar. Ekki veit ég hversu margir hér inni vissu að hann gaf út ásamt bróður sínum spurningabók um kvikmyndir og tók heilsíðuviðtal fyrir DV við Keith Carradine, stórleikara frá Hollywood, þegar hann dvaldi á Siglufirði við leik í myndinni Fálkar. Tóti heldur einnig úti skemmtilegri heimasíðu sem ég hvet alla til að kíkja á því hér verður aðeins stiklað á stóru í hans ferli.
 
Tónlistin
Tónlistin hefur skipað stóran sess í lífi Tóta og á skólaárunum var hann í mörgum hljómsveitum sem höfðu ekki síðri nöfn en þær frægu í dag svo sem Brestur, Camelía 2000 sem nefnd var eftir dömubindum, Harðlífi og Dalli Daladriver og hryggsúlurnar svo nokkrar séu nefndar.
 
Hann var 25 ára þegar hann kom fyrst fram einn með gítarinn og flutti frumsamin lög og nokkru síðar hélt hann sína fyrstu tónleika. Þá var ekki aftur snúið og eru þau ótal mörg tilefnin þar sem hann hefur flutt bæði eigin lög og annarra. Tóti hefur komið fram með um tæplega tvöhundruð tónlistarmönnum á ferlinum, og eins og hann segir „byrjendum, snillingum og allt þar á milli.“  Svo hefur hann sungið og spilað með kórum og tekið þátt í leikritum og söngleikjum, er í sönghópnum Gómum, kvæðamannafélaginu Fjallahnjúkum og það nýjasta hjá honum er að fást við að búa til stemmur.
 
Tímamót voru á ferlinum þegar Tóti hóf upptökur á sínum fyrsta geisladisk, Má ég kitla þig, árið 2000 ásamt siglfirsku tónlistarfólki. Aðrir diskar sem hann hefur gefið út eru Stolnar stundir og Dyggðirnar ásamt því að eiga lög á nokkrum diskum. Frumsömdu lögin eru orðin vel á annað hundraðið, flest fjalla um ástina og lífið í öllum sínum fjölbreytileika, og ekki ólíklegt að við eigum von á mörgum til viðbótar í nánustu framtíð.
 
Ljóðskáldið og sagnamaðurinn
Tóti var bókaormur og byrjaði snemma að fikta við ljóðagerð og hans fyrsta ljóð birtist í skólablaði Barnaskóla Bíldudals þegar hann var í 6. bekk. Þar með var boltanum kastað og ritstörfin orðin fastur hluti af hans lífi.
 
Æskumyndir heitir fyrsta ljóðabók Tóta sem hann gaf út árið 2006 og tileinkar uppvaxtarárum sínum á Bíldudal. Þremur árum síðar kom sú næsta út og fékk hún nafnið Fleiri æskumyndir. Á síðasta ári leit sú þriðja dagsins ljós, Nýr dagur. 
 
Eitt af því dýrmæta sem mér finnst Tóti hafa gert er að safna saman og gefa út siglfirskar gamansögur sem annars hefðu líklega fallið í gleymskunnar dá. Heftin eru orðin fjögur og vona ég svo sannarlega að þau verði fleiri. 
 
Hinn fjölhæfi 
Eins og hér hefur komið fram þá hefur Tóti komið miklu í verk og ekki má heldur gleyma að hann er einn af stofnendum Ungmennafélagsins Glóa og hefur gegnt þar formennsku lengi ásamt þjálfun í tvo áratugi og fékk viðurkenningu fyrir mikið og óeigingjarnt starf að íþróttamálum á Siglufirði árið 2011.
 
Mig langar að lesa annað ljóð eftir Skerjafjarðarskáldið en ég tel það, eins og hið fyrra sem ég las, lýsa Tóta eins og hann kemur mér fyrir sjónir.
 
Hvatning
Ég lærði það sem lítið grey,
Sem lék á nettum fótum,
Að fögur hvatning fyrnist ei
En fær að skjóta rótum.
 
Sú hvatning setti mark á mig,
Ég meta orðin kunni,
Er traustar rætur teygðu sig
Að tilverunnar grunni.
 
Besta hvatning blómstra fékk,
Hún byrðar hlaut að létta,
Ég viss um mína veröld gekk
Með veganesti þetta.
 
Það er einlæg von menningarnefndar að viðurkenningin efli, styrki þig og hvetji til enn frekari dáða og hvar sem þú kemur fram þá vonum við að þú skreytir þig með titlinum bæjarlistamaður Fjallabyggðar.