Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Fjallabyggðar

Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Fjallabyggðar  

1.gr. 
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar veitir listamanni í Fjallabyggð nafnbótina ,,Bæjarlistamaður Fjallabyggðar“, ásamt styrk til eins árs. Aðeins þeir listamenn sem búsettir hafa verið í Fjallabyggð að minnsta kosti um tveggja ára skeið koma til greina.  Nafnbótin getur hvort sem er hlotnast einstaklingum eða hópi.

2. gr. 
Styrkurinn  skal vera ákveðin upphæð á ári samkvæmt fjárhagsáætlun.  Upphæð styrks skal koma fram þegar auglýst er eftir bæjarlistamanni. 

3. gr. 
Markaðs- og menningarnefnd auglýsir eftir umsóknum og/eða óskar eftir rökstuddum ábendingum um bæjarlistamann, en er þó ekki bundin af því. Auglýst skal í bæjarblöðum og á heimasíðu Fjallabyggðar fyrir 25. nóvember ár hvert. Ákvörðun um bæjarlistamann er tekin af markaðs- og menningarnefnd.  

4. gr.
Í umsókn listamanns skal koma fram á hvern hátt hann hugsi sér að láta  sveitarfélagið og íbúa þess njóta listar sinnar. Það getur t.d. verið  með sýningar- eða tónleikahaldi, samstarfi við félög bæjarins og skóla, eldri borgara og/eða aðra listamenn í sveitarfélaginu í samráði við menningarfulltrúa. 

5.gr. 
Bæjarlistamaður er tilnefndur í upphafi árs út almanaksárið. Markaðs- og menningarnefnd mælist til þess að “Bæjarlistamaður Fjallabyggðar” láti nafnbótina koma fram sem víðast.  

6.  gr. 
Gera skal skriflegan samning við bæjarlistamann.

7. gr.
Reglur þessar taka gildi við samþykkt þeirra í bæjarstjórn.

Samþykkt á 95. fundi bæjarstjórnar 12. desember 2013.