Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2015

Bæjarlistamaður 2015 - Fríða Björk Gylfadóttir

 
Fríða Björk GylfadóttirFríða Björk Gylfadóttir eða “Fríða” eins og hún er kölluð, hefur verið búsett á Siglufirði frá árinu 1993. Hún ólst upp í Reykjavík og hefur verið að teikna og skapa síðan hún man eftir sér. Fríða sótti nokkur námskeið hjá Myndlistaskóla Reykjavíkur sem krakki. Það nám opnaði dyrnar að mörgum tilraunum til frekari sköpunar.
 
Eftir flutning á Siglufjörð, árið 1993, hóf Fríða að teikna og mála aftur, eftir langt hlé. Að hennar sögn hefur lífið úti á landi gefið henni góðan og mikinn kraft og verk hennar orðið æ fleiri og fjölbreyttari. Fyrstu vinnustofuna opnaði Fríða árið 2003. Árið 2006 opnaði Fríða síðan núverandi vinnustofu sína að Túngötu 40a, Siglufirði.
 
Fríða átti hugmyndina að Héðinsfjarðartreflinum á sínum tíma og sá um það verkefni en með hjálp góðra manna og kvenna en alls komu að því verkefni um 1.400 manns með einum eða öðrum hætti. Verkefnið var ákveðið sameiningartákn fyrir íbúa Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og átti sinn þátt í þeirri jákvæðu umfjöllun sem Fjallabyggð hlaut í landsfjölmiðlun í tengslum við gerð gangnanna. Þess má geta að hluti af treflinum hefur verið seldur og hefur ágóði af sölunni, tæpar 850.000 kr. runnið til Umhyggju, félags langveikra barna.
 
Fríða mun opna sýningu þann 28. mars nk. í Listhúsi Ófeigs að Skólavörðustíg 5 Reykjavík. Þar verða til sýnis myndir af hestum. Fríða hefur unnið að þessari sýningu að undanförnu til að fagna 50 ára afmæli sínu á þessu ári en þeim áfanga nær hún þann 17. mars nk. Sýningin verður opin til 22. apríl. 
 
Nánari upplýsingar um Fríðu og verk hennar má sjá á heimasíðunni hennar, www.frida.is