Bæjarlistamaður Fjallabyggðar og afhending styrkja

Mynd: Albert Gunnlaugsson
Mynd: Albert Gunnlaugsson

Í gær, fimmtudaginn 6. febrúar,  var Elías Þorvaldsson útnefndur Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2020. Er það í ellefta sinn sem bæjarlistamaður er útnefndur í Fjallabyggð.
Við athöfnina sem fram fór í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði voru einnig formlega afhentir, menningar- og fræðslustyrkir, styrkir til reksturs safna og setra og styrkir til hátíðarhalda.

Fjölmenni var við athöfnina. Ólafur Stefánsson formaður markaðs- og menningarnefndar og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi afhentu styrkina og það var Linda Lea Bogadóttir sem afhenti bæjarlistamanni viðurkenninguna. 

Við athöfnina voru flutt tónlistaratriði og fram komu þau Hörður Ingi Kristjánsson sem spilaði á píanó, Guðmann Sveinsson og Hólmfríður Ósk Norðfjörð Rafnsdóttir fluttu tvö lög og Karlakórinn í Fjallabyggð fyllti svo Tjarnarborg með söng sínum undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar bæjarlistamanns. Að lokinni athöfn bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar.

Í ár voru úthlutaðir styrkir til fræðslu- og menningarmála að upphæð 10.600.000.-  Þar af fara kr. 2.700.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 3.250.000.- til hátíðarhalda og kr. 2.750.000.- til reksturs safna og setra. Styrkur til fræðslumála nam kr. 100.000.- og framkvæmdastyrkur til Pálshúss nemur kr. 1.500.000.-
Að auki er árlegur styrkur til bæjarlistamanns Fjallabyggðar kr. 300.000.-

Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2020 Elías Þorvaldsson
Annáll Lindu Leu Bogadóttur, markaðs- og menningarfulltrúa
Listi yfir veitta styrki 2020
Kynning á verkefnum sem hlutu styrki 2020

             

Myndir með frétt tók Albert Gunnlaugsson.