Brynja Baldursdóttir myndlistarmaður hefur verið útnefnd Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2023.
Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar samþykkti, á fundi sínum fimmtudaginn 3. nóvember 2022, að útnefna Brynju Baldursdóttur sem Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2023.
Brynja Baldursdóttir myndlistarmaður og grafískur hönnuður er fædd 1964 og búsett á Siglufirði. Brynja stundaði nám við Myndlista- og handíðaskólann á árunum 1982-1986 og er hún með mastersgráðu frá Royal College of Art og stundaði þar einnig doktorsnám.
Hún hefur sýnt víða hér heima og erlendis og eru hennar helstu listform bóklist og lágmyndir.
Eftir Brynju liggur fjöldi bókverka, bæði bóklistaverk og hannaðar bækur. Brynja hefur unnið til ýmissa verðlauna fyrir grafíska bókahönnun ásamt því að vera tilnefnd til Menningarverðlauna DV 1993 fyrir bóklist. Verk hennar eru í opinberri eigu viða hér heima og erlendis.
Brynja vinnur með hið innra landslag mannsins.
Það er ánægjulegt að segja frá því að EFTA Dómstólinn í Lúxemborg festi nýverið kaup á stóru verki eftir Brynju sem kemur til með að verða sett upp fyrir aftan dómarana í dómsal í höfuðstöðvum þeirra.
Brynju er þakkað hið gríðarlega mikla og góða starf sem hún hefur gefið til samfélagsins á síðastliðnum áratugum og með stolti óskum við henni innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2023.
Fjölmargar tilnefningar bárust og þakkar markaðs- og menningarnefnd kærlega fyrir þær.