Artótek Listasafns Fjallabyggðar

Heimilt er að lána listaverk í eigu sveitarfélagsins tímabundið til stofnana og fyrirtækja innan sveitarfélagsins og á listsýningar eða til rannsókna, enda sé gætt réttar höfunda samkvæmt ákvæðum höfundalaga um slíkar sýningar.

Höfundur verks á rétt á að fá verk sín lánuð á eigin sýningar og til endur- og afritagerðar í samræmi við höfundalög, sé slíkt framkvæmanlegt, tímasetning skarist ekki á við áætlanir Fjallabyggðar og sé án kostnaðar fyrir sveitarfélagið.

Á heimasíðu Listasafns Fjallabyggðar má sjá hvaða listaverk eru til útláns. Fjallabyggð áskilur sér rétt til að hafna óskum um útlán listaverka.

Lánstími er eftir samkomulagi hverju sinni þó aldrei lengri en 12 mánuði. Fjallabyggð áskilur sér rétt til að innkalla verk tímabundið til dæmis vegna sýningahalds eða forvörslu.

Gengið skal frá skriflegu samkomulagi milli Listasafns Fjallabyggðar og hlutaðeigandi stofnunar/fyrirtækis, þar sem tilgreindir eru allir skilmálar fyrir láni listaverksins eða listaverkanna, þar með talin, lánstími, staðsetning listaverks innan stofnunar/fyrirtækis, ábyrgðaraðili og meðferð verkanna meðan á láni stendur.

Við útlán, til annarra en stofnana sveitarfélagsins, skal greiða umsýslugjald kr. 15.000.- óháð fjölda verka.

Séu listaverk lánuð til kennslu eða listasýninga er heimilt að fella niður lántökugjald. 

Vandað skal til verka við val á staðsetningu og uppsetningu listaverka þannig að þau megi njóta sín sem best. Öll lán á listaverkum þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Fyrirtæki eða stofnun skulu hafa bruna- og innbústryggingu
  • Yfirmenn stofnana/fyrirtækja skulu ábyrgir fyrir verkum sem lánuð eru til þeirra og bera þar með ábyrgð á öryggi þeirra og ástandi.
  • Gæta skal ýtrustu varkárni við meðferð og uppsetningu verka.
  • Verk skulu flutt á milli staða í við eins góðar aðstæður og aðbúnað og mögulegt er, á kostnað lántaka.
  • Verkum sem eingöngu mega vera innan dyra skal komið fyrir þar sem sól skín ekki á þau og hiti og raki er jafn og eðlilegur (nema annað eigi við) og þar sem þeim stafar almennt ekki hætta af umferð fólks við þau.

Vakin er athygli á að lántaki ber fulla ábyrgð á verkinu og bætir tjón eða skaða sem listaverk kann að verða fyrir í vörslu lántakanda.

Ef um vanrækslu af hálfu lántaka er að ræða á meðferð verka, samkvæmt reglum þessum, skal þeim strax skilað ef óskað er eftir því.

 

Umsókn um útlán Útlánareglur